Handbolti

Þýsk handboltafélög íhuga að hleypa leikmönnum ekki í landsleiki

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Janus Daði Smárason er einn níu leikmanna í íslenska landsliðshópnum sem leika í Þýskalandi.
Janus Daði Smárason er einn níu leikmanna í íslenska landsliðshópnum sem leika í Þýskalandi. vísir/andri marinó

Þýsk handboltafélög íhuga að banna leikmönnum sínum að fara í landsleiki til landa sem eru skilgreind sem hættusvæði vegna kórónuveirufaraldursins. Handbolti.is greindi fyrstur frá íslenskra miðla.

Ísland mætir Litháen og Ísrael hér á landi í undankeppni EM 2022 í byrjun næsta mánaðar. Níu af sautján leikmönnum í íslenska hópnum leika í Þýskalandi. Þá er landsliðsþjálfarinn Guðmundur Guðmundsson þjálfari Melsungen.

Ísland hefur verið skilgreint sem hættusvæði af þýskum stjórnvöldum síðan 30. september.

„Það er ljóst að við myndum aldrei senda leikmenn í landsliðsverkefni til landa sem eru skilgreind sem hættusvæði og þyrftu að fara í sóttkví við heimkomuna,“ sagði Jennifer Kettemann, framkvæmdastjóri Rhein-Neckar Löwen, við Mannheimer Morgen.

Þýska handknattleikssambandið vildi fá fullvissu frá öðrum handknattleikssamböndum um að leikmenn þyrftu ekki að fara í sóttkví við heimkomuna úr landsliðsverkefnum.

Ísland mætir Litháen 4. nóvember og Ísrael þremur dögum síðar. Þetta eru fyrstu leikir Íslendinga í undankeppni EM 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×