Kári Stefánsson og Valgerður Ólafsdóttir fengu kettling að gjöf um helgina. Sólveig dóttir Kára segir köttinn gleðja fólkið sitt óendanlega mikið þótt hann muni aldrei koma í stað þess sem kvaddi þennan heim á föstudaginn.
Kári lýsti eftir Hugin á föstudaginn, félaga sínum og fóstbróður eins og Kári komst að orði. Síðar um daginn greindi hann frá því að leitinni væri lokið.
„Huginn fannst andvana í garði ekki langt frá heimili sínu. Dánarorsök óþekkt. Djúpvitur köttur, fagur og yndislegur horfinn á vit feðra sinna. Við sitjum eftir í botnlausri sorginni.“
Sólveig Káradóttir, dóttir Kára, greinir frá því á Instagram að Kári og Valgerður hafi fengið kött að gjöf um helgina. Tónlistarkonan Þórunn Antonía gaf parinu köttinn.
„Takk elsku Þórunn fyrir að gleðja fólkið mitt óendanlega mikið,“ skrifar Sólveig á Instagram.