Lögmaður eiganda hússins að Bræðraborgarstíg 1, sem brann í lok júní, segir útilokað að hægt verði að rífa húsið á þessu ári. Ágreiningur sé uppi á milli eiganda og tryggingarfélagsins, sem tryggði húsið, sem þurfi fyrst að leysa úr og það geti tekið ár.
Íbúaráð Vesturbæjar telur mikilvægt að rústir húsins verði fjarlægðar strax í nóvember. Í bókun ráðsins frá því á miðvikudaginn segir að hætta stafi af rústunum og þær veki óhug hjá nágrönnum. Þrír fórust í brunanum.

Skúli Sveinsson lögmaður eigenda fyrirtæksins HD verks segir í samtali við fréttastofu að ágreiningur sé um það að hve miklu leyti húsið skemmdist í eldinum.
Tryggingarfélagið sem tryggði húsið vill meina að það sé enn að hluta til heilt eða 30% af því. Eigandinn telji það hins vegar gjörónýtt og vill fá tjónið bætt. Húsið sé ekki hægt að rífa fyrr en þessu trygginarmáli sé lokið.
Útilokað er að hægt verði að rífa húsið á þessu ári en það geti tekið mánuði eða jafnvel ár að leysa úr ágreiningnum.
