Breskur maður veðjaði á sigur Donalds Trump í forsetakosningunum í Bandaríkjunum. Hann lagði fimm milljónir dollara undir eða sem svarar um sjö hundruð milljónum íslenskra króna.
Fjölmiðlar um heim allan greina frá því að veðmálið hafi verið það stærsta í tengslum við forsetakosningarnar.
Ef Trump fer með sigur af hólmi mun maðurinn fara heim með 15 milljónir dollara eða því sem samsvarar 2,1 milljarð íslenskra króna.
Fjölmargir græddu mikið í forsetakosningunum árið 2016 þegar Trump vann nokkuð óvænt og var því veðjað töluvert á kosningarnar í ár. Niðurstaðan liggur aftur á móti ekki enn fyrir og gætu liðið nokkrir daga og jafnvel vikur þar til að næsti forseti Bandaríkjanna verður formlega kjörinn.
Síðustu klukkutímana í nótt veðjaði 71% af þeim einstaklingum sem ætluðu sér að græða á kosningunum á Donald Trump. Stuðulinn á hann lækkaði því umtalsvert en Bretinn náði inn á góðum tíma, á undan mörgum. Spurning hvort hann græði á Trump, eða ekki.
Þeir Joe Biden og Donald Trump berjast um það að verða næsti forseti Bandaríkjanna.