Björgunarsveitin Gerpir í Neskaupsstað var kölluð út á áttunda tímanum í kvöld til að ná bíl úr sjónum sem hafði runnið mannlaus niður í fjöru skammt frá húsi sveitarinnar.
Ríkisútvarpið greindi fyrst frá en fram kemur í færslu Gerpis á Facebook að aðstæður hafi verið afar erfiðar og öldur gengið yfir björgunarsveitarmennina. Hviður hafi jafnframt náð 36 metrum á sekúndu á meðan björgunaraðgerðinni stóð. Vel gekk þó að koma taug í bílinn svo hægt væri að hífa hann upp á land.

Veður hefur verið slæmt víða á landinu í dag og gular stormviðvaranir í gildi á norðan- og austanverðu landinu. Þá má gera ráð fyrir að annar stormur taki við síðdegis á morgun á nær öllu landinu.