Fótbolti

Ramos jafnaði met Buf­fon | Varnar­maður Man City fór meiddur af velli

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ramos kom inn af bekknum í kvöld og jafnaði met Buffon.
Ramos kom inn af bekknum í kvöld og jafnaði met Buffon. Jose Breton/Getty Images

Holland og Spánn mættust í æfingaleik í kvöld. Lauk leiknum með 1-1 jafntefli þar sem Donny van de Beek, leikmaður Manchester United, skoraði mark Hollendinga.

Nágrannar og erkifjendur United í Manchester City hafa hins vegar litla ástæðu til að fagna en Nathan Aké, varnarmaður liðsins, haltraði af velli eftir aðeins sex mínútna leik. Í hans stað kom Daley Blind, fyrrum leikmaður Man United.

Sergio Canales kom Spánverjum yfir á 19. mínútu eftir sendingu frá Álvaro Morata, leikmanni Juventus. Tíu mínútum síðar urðu Spánverjar fyrir áfalli þegar vinstri bakvörðurinn José Gayà fór meiddur af velli. Í hans stað kom Sergio Reguilón, leikmaður Tottenham Hotspur.

Var mark Canales eina mark fyrri hálfleiks og staðan 1-0 gestunum í vil. Donny van de Beek jafnaði metin strax í upphafi síðari hálfleiks og þar við sat. Lokatölur 1-1 hjá þessum miklu knattspyrnuþjóðum. Hollendingar hafa ekki enn unnið síðan Frank de Boer tók við stjórn liðsins.

Sergio Ramos - miðvörður Real Madrid - kom inn af varamannabekk Spánar þegar fimm mínútur voru eftir. Jafnaði hann þar með met ítalska markvarðarins Gianluigi Buffon yfir flesta landsleiki fyrir Evrópuþjóð. Hafa þeir báðir leikið 176 landsleiki á ferlinum.


Tengdar fréttir

Vængbrotið lið Dana vann Svía

Danmörk lagði Svíþjóð er þau mættust í æfingaleik í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur 2-0 vængbrotnu liði Danmerkur í vil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×