Fótbolti

Valdimar Þór tryggði Ís­landi sigur undir lok leiks og EM draumurinn lifir

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Íslenska liðið fagnar fyrra marki sínu í dag.
Íslenska liðið fagnar fyrra marki sínu í dag. Harry Murphy/Getty Images

Varamaðurinn Valdimar Þór Ingimundarson tryggði íslenska U21 landsliðinu sigur á ögurstundu er liðið mætti Írlandi ytra í dag. Lokatölur 2-1 og Ísland á enn möguleika á að komast í umspil.

Íslenska liðið byrjaði leikinn í dag af krafti og komst yfir um miðbik fyrri hálfleiks þegar Sveinn Aron Guðjohnsen – sem var fyrr í dag kallaður upp í A-landslið Íslands – skoraði eftir frábæra sendingu Jóns Dags Þorsteinssonar.

Afgreiðslan var ekki mikið verri en Sveinn Aron vippaði knettinum snyrtilega yfir markvörð Írlands. Markið má sjá hér að neðan.

Var það eina mark fyrri hálfleiks en þó Írar hafi átt fleiri skot þá var varnarmúr Íslands þéttur og liðið gaf fá færi á sér.

Írar sóttu í sig veðrið og ákvað Arnar Þór Viðarsson, þjálfari Íslands, að taka miðjumennina William Þór Willumsson og Andra Fannur Baldursson af velli eftir klukkutíma leik. Samkvæmt heimildum Fótbolti.net eiga þeir báðir að fara til móts við A-landsliðið fyrir leikinn gegn Englandi á miðvikudaginn í næstu viku.

Willum Þór í leiknum í dag.Harry Murphy/Getty Images

Þegar fimmtán mínútur lifðu leiks jöfnuðu heimamenn en skot Joshua Kayode fór í Ara Leifsson og í netið. Staðan orðin 1-1 og þannig var hún þangað til undir lok leiks.

Eftir svekkjandi tap gegn Ítalíu á fimmtudaginn þar sem Ítalir skoruðu sigurmarkið undir lok leiks með skoti sem fór í leikmann íslenska liðsins þá var slíkt hið sama upp á teningnum í dag en íslenska liðið lét það ekki á sig fá.

Nathan Collins fékk rautt spjald í liði heimamanna þegar þrjár mínútur voru eftir og eftir það settu íslensku strákarnir allt sem þeir áttu í sóknina. Endaði það með því að Alfons Sampsted renndi boltanum fyrir markið á varamanninn Valdimar Þór sem skoraði sigurmarkið.

Lokatölur 2-1 og íslensku strákarnir komnir upp í 2. sæti riðilsins. 

Nú þurfa þeir bara að treysta á að Ítalía vinni eða geri jafntefli við Svíþjóð í vikunni. Ísland átti að leika við Armeníu en þeim leik hefur verið frestað og nær öruggt að honum verði einfaldlega aflýst.

Sigurmark Íslands sem og mark Íra má sjá á Fótbolti.net.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×