Perúþing hefur skipað Francisco Sagasti sem forseta landsins til bráðabirgða. Sagasti verður þriðji forseti landsins á innan við viku.
Þingmaðurinn Sagasti er 76 ára, verkfræðingur að mennt og starfaði lengi innan fræðasamfélags Perú. Hann mun nú stýra landinu þar til að nýr forseti tekur við, en forsetakosningar eru fyrirhugaðar í landinu næsta vor.
Þingið bolaði Martin Vizcarra úr embætti forseta í síðustu viku í landsins í kjölfar ásakana um spillingu. Vizcarra hafnar þeim ásökunum sem á hann hafa verið bornar. Í kjölfarið brutust út mikil mótmæli í landinu og segir í frétt BBC að í þeim hafi tveir látið lífið.
Þingforsetinn Manuel Merino tók við embættinu af Vizcarra fyrir tæpri viku, en hann sagði svo af sér á sunnudag eftir mikinn þrýsting frá stjórnmálamönnum vegna harðra aðgerða lögreglu gegn mótmælendum í landinu.
Sagasti er flokksbundinn eina flokknum á Perúþingi sem greiddi atkvæði gegn því að bola Vizcarra úr embætti í síðustu viku.