Sport

Ein sú besta í heimi hættir hjá þjálfara Katrínar Tönju

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brooke Wells og Katrín Tanja Davíðsdóttir eru hér saman í búbblunni á heimsleikunum að tala við æfingafélaga sinn Tori Dyson sem vinnur í stöðinni hjá Ben Bergeron.
Brooke Wells og Katrín Tanja Davíðsdóttir eru hér saman í búbblunni á heimsleikunum að tala við æfingafélaga sinn Tori Dyson sem vinnur í stöðinni hjá Ben Bergeron. Instagram/@toridysonnn

Ben Bergeron, þjálfari Katrínar Tönju Davíðsdóttir, átti tvær konur á topp fimm á heimsleikunum í CrossFit á dögunum en önnur þeirra er nú að leita sér að nýjum þjálfara.

Ben Bergeron sagði frá því á Instagram síðu sinni að bandaríska CrossFit konan Brooke Wells hafi ákveðið að slíta samstarfi þeirra eftir fjögur ár.

Brooke Wells endaði í fimmta sæti á heimsleikunum í CrossFit í ár sem var hennar besti árangur á leikunum frá upphafi og tíu sætum ofar en árið á undan.

Ben Bergeron skrifaði falleg orð um læridóttur sína í færslunni á Instagram.

„Í fjögur ár hef ég notið þeirra forréttindi að vera þjálfari Brooke Wells. Hún hefur heillað mig með hungri sínu og vilja til að leggja á sig vinnuna auk keppnishörku sinnar og seiglu. Ég hef notið þess að sjá hana verða að sönnum atvinnumanni, vini og keppniskonu um verðlaunasæti,“ skrifaði Ben Bergeron.

„Brooke lét mig vita af því að það sé kominn tími fyrir hana að prófa ný tækifæri með nýjum þjálfara og ég óska henni alls hins besta. Brooke þú munt alltaf eiga í mér vin, aðdáanda og heimili hjá mér í Boston. Elska þig,“ skrifaði Bergeron eins og sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×