Lífið

Dauð­sér eftir fram­hjá­haldinu

Sylvía Hall skrifar
Hjónin saman á Grammy-verðlaunahátíðinni í ár.
Hjónin saman á Grammy-verðlaunahátíðinni í ár. Getty/Jeff Kravits

Rokkstjarnan Ozzy Osbourne segist ekki vera stoltur af því að hafa haldið fram hjá eiginkonu sinni Sharon. Hjónin hafa verið gift frá árinu 1982 en slitu samvistir árið 2016 eftir að upp komst um framhjáhald Ozzy.

„Ég hef gert nokkra hneykslanlega hluti í gegnum tíðina. Ég sé eftir því að hafa haldið fram hjá eiginkonu minni. Ég geri það ekki lengur,“ sagði Ozzy í viðtali við breska GQ.

„Ég er heppinn að hún fór ekki frá mér. Ég er ekki stoltur af þessu. Ég var reiður út í sjálfan mig, en ég braut í henni hjartað.“

Ozzy hefur áður tjáð sig um framhjáhöld sín, til að mynda í viðtali við Rolling Stone árið 2017. Sagði hann það vera hluta af „rokkaralífstílnum“ og hann hefði þurft að taka því slæma með því góða. Hann sé þó meðvitaður um að hann sé heppinn að Sharon hafi ekki farið frá honum.

„Ég áttaði mig á því hversu mikill fáviti ég var. Ég meina, ég er enn klikkaður, en ég hef betri stjórn á því.“

Eftir sambandsslitin tóku hjónin aftur saman og hafa unnið í hjónabandinu síðustu ár. Sharon hefur tjáð sig um framhjáhaldið og sagðist hafa áttað sig á því að hún gæti ekki lifað lífinu án hans.

„Ég fyrirgef. Það mun taka sinn tíma að treysta, en við höfum verið saman í 36 ár, 34 í hjónabandi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×