Fyrirtækið Distica mun sjá um að flytja bóluefni við kórónuveirunni til landsins. Þar á meðal Pfizer-bóluefnið sem þarf að geyma í 80 gráðu kulda.
Sóttvarnalæknir sagði nýverið að erfiðlega gæti reynst að flytja bóluefni, sem er erfitt í geymslu og flutningum, um allt land.
Júlía Rós Atladóttir, framkvæmdastjóri félagsins, segir að hægt verði að dreifa Pfizer-bóluefninu um allt land.
„Og það reddar þessu alveg að það er hægt að geyma þetta bóluefni í nokkra daga í kæli. Þannig að á heilsugæslustöðum landsins, þar sem eru kælar, er hægt að geyma bóluefni í nokkra daga, en það þarf að hafa hraðar hendur,“ segir Júlía Rós Atladóttir.
Þurrís hafi áður verið notaður til að dreifa bóluefni sem þarf að geyma í miklum frosti.
„Þetta hefur reynst vel og alveg hægt að tryggja mínus áttatíu með þurrís.“