Mason Mount, leikmaður Chelsea, yfirgaf sóttkví sem hann á að vera í og fær væntanlega væna sekt frá félaginu fyrir uppátækið.
Allir leikmenn Chelsea voru sendir í sóttkví eftir að Callum Hudson-Odoi varð fyrsti leikmaðurinn í ensku úrvalsdeildinni til að greinast með kórónuveiruna.
Mount var hins vegar ekki að stressa sig of mikið á því að fara eftir almennum reglum um fólk sem er í sóttkví.
Hann fór nefnilega út í fótbolta í gær með góðvini sínum, Declan Rice, leikmanni West Ham United. Enskir fjölmiðlar greina frá þessu í dag.
Mount fær væntanlega háa sekt frá Chelsea og skammir í hattinn fyrir að yfirgefa sóttkvína.
Hinn 21 árs Mount hefur vakið athygli fyrir góða frammistöðu með Chelsea í vetur. Hann hefur leikið 41 leik í öllum keppnum á tímabilinu og skorað sex mörk.
Keppni í ensku úrvalsdeildinni var frestað til 3. apríl, hið minnsta, vegna kórónuveirunnar.