Fyrir leikinn gegn Fulham greindi Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, frá því að Jota hefði meiðst á hné í leiknum gegn Midtjylland í Meistaradeild Evrópu og gæti verið frá í sex til átta vikur.
Í versta falli missir Portúgalinn af þrettán leikjum með Liverpool en Klopp sagði að hann kæmi líklega ekki aftur fyrr en í 4. umferð ensku bikarkeppninnar seinni hlutann í janúar. Jota hefur farið frábærlega af stað með Liverpool eftir að hafa komið frá Wolves fyrir tímabilið.
Matip fór meiddur af velli í hálfleik gegn Fulham í gær. Takumi Minamino kom inn á í hans stað og Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool, lék sem miðvörður við hlið Fabinhos í seinni hálfleik.
Að sögn Klopps eru meiðsli Matips ekki alvarleg og hann gæti mögulega tekið þátt í stórleiknum gegn Tottenham á miðvikudaginn.
Joe Gomez og Virgil van Dijk eru meiddir og verða lengi frá svo það síðasta sem Liverpool má við að er að missa enn einn miðvörðinn í meiðsli.
Fabinho hefur spilað mikið í miðri vörn Liverpool í vetur og þá hafa hinir ungu og óreyndu Nat Phillips og Rhys Williams einnig fengið tækifæri.
Liverpool og Tottenham eru jöfn að stigum á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.