Í samtali við Fótbolta.net staðfesti Sigurður Hlíðar Rúnarsson, deildarstjóri knattspyrnudeildar Breiðabliks, að félagið hefði fengið fyrirspurn um Karólínu frá Þýskalandi. Landsliðskonan skrifaði undir þriggja ára samning við Breiðablik í síðasta mánuði.
Karólína, sem er nítján ára, er uppalinn hjá FH en gekk í raðir Breiðabliks fyrir þremur árum. Hún varð Íslandsmeistari með Blikum 2018 og 2020 og bikarmeistari 2019.
Í sumar lék Karólína fimmtán leiki með Breiðabliki í Pepsi Max-deild kvenna og skoraði fjögur mörk.
Hún lék þrjá leiki með íslenska landsliðinu í undankeppni EM í haust og skoraði eitt mark.