Fótbolti

Ís­lenska lands­liðið fer til Pól­lands frá Fær­eyjum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úr síðustu viðureign Póllands og Íslands. Þar höfðu Pólverjar betur 4-2.
Úr síðustu viðureign Póllands og Íslands. Þar höfðu Pólverjar betur 4-2. Mateusz Wlodarczyk/NurPhoto

Knattspyrnusamband Íslands staðfesti í dag annan æfingaleik íslenska karlalandsliðsins næsta sumar. Sá er gegn Pólverjum þann 8. júní. Fer leikurinn fram í Poznan.

Fjórum dögum áður verður Ísland í Færeyjum þar sem endurbættur Þjóðarleikvangur verður vígður.

Upphaflega stóð til að Ísland myndi mæta bæði Færeyjum og Póllandi á þessu ári en vegna kórónufaraldursins var leikjunum frestað. Þeir fara nú báðir fram í júní á næsta ári.

Alls hafa Ísland og Pólland mæst sex sinnum í gegnum tíðina. Pólland hefur fimm sinnum haft betur og einu sinni hafa löndin skilið jöfn. Ísland hefur aldrei unnið Pólland á knattspyrnuvellinum þegar A-landslið karla mætast.

Löndin mættust síðast þann 13. nóvember árið 2015 í Póllandi. Leiknum lauk með 4-2 sigri heimamanna þar sem Gylfi Þór Sigurðsson og Alfreð Finnbogason skoruðu mörk Íslands.

Markatalan í leikjunum sex er 13-5 Pólverjum í vil.

Er leikur Póllands og Íslands í júní næstkomandi síðasti leikur Póllands í undirbúningi sínum fyrir EM. Þann 14. júní mæta þeir Slóvakíu í fyrsta leik mótsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×