Í fréttum Stöðvar 2 má sjá myndir af því hvernig þessi fyrstu jarðgöng veraldar fyrir skip munu líta út. Megintilgangurinn með göngunum er sagður sá að auka öryggi sjófarenda með því að sneiða framhjá einni hættulegustu siglingaleið Evrópu, leiðinni fyrir veðravítið Stað sunnan Álasunds, en röstin þar þykir jafnframt svæsin.

Skipstjórar voru farnir að æfa sig í siglingahermi þegar bakslag kom í áformin fyrir tveimur árum með skýrslu sem sýndi að framlag norska ríkisins jafngilti því að borgað væri með hverju skipi sem sigldi í gegn andvirði nærri 400 þúsund íslenskra króna næstu 40 ár. Annað áfall kom þegar ráðamenn Hurtigruten lýstu því yfir að ferjur þeirra myndu ekki nota göngin.

Skipagöngin nutu á móti stuðnings frá fylkisþingi Vesturlands og sveitarfélögum, samtökum launþega og atvinnulífs, þar á meðal útgerðum fiskiskipa og smærri farþegaferja. Einnig umhverfisverndarsamtökum, en fullyrt er göngin stytti siglingatíma, dragi úr eldsneytisnotkun og minnki kolefnisspor skipa um allt að 60 prósent milli Álasunds og Måløy sigli þau innri leið um göngin í stað ytri leiðar fyrir Stað.

Þegar norska ríkisstjórnin kynnti fjárlagafrumvarp sitt í haust var engin króna sett í skipagöngin og bar samgönguráðherrann, Knut Arild Hareide, því við að ekki væru til neinir peningar í göngin. Framfaraflokkurinn, sem minnihlutastjórn Ernu Solberg þarf að treysta á til að verjast falli, brást hins vegar hart við og hótaði að bera ríkisstjórnina ofurliði og mynda sérstakan meirihluta um skipagöngin með stjórnarandstöðunni.
Fór svo að ríkisstjórnarflokkarnir gáfu eftir í samningum við Framfaraflokkinn og þegar norsku fjárlögin voru samþykkt í Stórþinginu á laugardag var búið að bæta inn 1,1 milljarði íslenskra króna til að hefja gröftinn fyrir lok næsta árs. Áætlað er að skipagöngin kosti alls um fimmtíu milljarða króna og vonast verkefnisstjórn til að fyrstu skipin sigli í gegn innan fimm ára.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Í þessari frétt frá árinu 2016 geta menn upplifað í sýndarveruleika hvernig verður að sigla um göngin: