Alexander Petersson skoraði tvö mörk í tapi Löwen en Ýmir Örn Gíslason komst ekki á blað. Tapið þýðir að Kiel fer upp fyrir Löwen í töflunni en liðin sitja nú í öðru og þriðja sæti deildarinnar. Kiel á þó leiki til góða sem stendur.
Líkt og svo rosalega oft áður var Bjarki Már Elísson allt í öllu í liði Lemgo. Hann átti hreint út sagt ótrúlegan leik er hann skoraði tíu mörk úr aðeins tólf skotum. Því miður fyrir Bjarka og samherja hans í Lemgo dugði það ekki til í kvöld.
Næsti maður á eftir Bjarka var aðeins með fjögur mörk og ljóst að af Íslendingsins nyti ekki við væri sóknarleikur liðsins frekar bragðdaufur. Tap kvöldsins þýðir að Lemgo dettur niður í 10. sæti þegar fimmtán umferðum er lokið. Liðið hefur nú unnið sex leiki, gert þrjú jafntefli og tapað sex leikjum.