Erlent

Sprengingin í Nas­hvil­le lík­lega sjálfs­morðs­sprengju­á­rás

Sylvía Hall skrifar
Skemmdir urðu á húsum nálægt sprengingunni á jóladagsmorgun.
Skemmdir urðu á húsum nálægt sprengingunni á jóladagsmorgun. Thaddaeus McAdams/Getty

Lögregluyfirvöld í borginni Nashville í Tennessee í Bandaríkjunum telja að sprengjan sem sprakk í húsbíl á jóladagsmorgun hafi verið sjálfsmorðssprengjuárás. Líkamsleifar sem fundust nærri sprengjustaðnum eru til rannsóknar.

Bandaríska alríkislögreglan, FBI, gerði húsleit hjá einstaklingi sem talinn er tengjast sprengingunni en fréttastofan CBS greindi frá því að hinn 63 ára gamli Anthony Quinn Warner, íbúi á svæðinu, hafi átt samskonar húsbíl og sprakk.

Þá er fullyrt að lögreglan leiti ekki fleiri einstaklinga þar sem talið er að einn hafi staðið að sprengjunni, og er hann talinn af.

Þrír særðust í sprengingunni sem var fyrir utan byggingu í eigu fjarskiptafyrirtækisins AT&T. Lögregla hafði upphaflega verið kölluð til vegna skothvella sem heyrðust á svæðinu skömmu fyrir klukkan sex að staðartíma í gærmorgun. Þegar komið var á vettvang heyrðist viðvörun úr hátalarakerfi sem var á bílnum um að hann myndi springa, sem hann svo gerði nokkrum mínútum síðar.

Sprengingin olli truflunum á fjarskiptakerfum í ríkinu, auk þess sem miklar skemmdir urðu á nærliggjandi byggingum og vatn flæddi niður veggi þar sem sprengingin olli skemmdum á lögnum húsa nálægt vettvangi.

Bill Lee, ríkisstjóri Tennessee, sagði það hafa verið kraftaverk að enginn hafi látist nærri staðnum sem sprengjan sprakk. Hann hafi haft samband við Donald Trump, fráfarandi Bandaríkjaforseta, í von um aðstoð við eftirmála sprengingarinnar.


Tengdar fréttir

Sprenging í Nashville talin vera viljaverk

Mikil sprenging varð í borginni Nashville í Tennessee-ríki í gærmorgun þegar húsbíll sprakk fyrir utan byggingu í eigu fjarskiptafyrirtækisins AT&T. Þrír slösuðust í sprengingunni, en fólk á svæðinu hafði verið varað við og beðið um að yfirgefa svæðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×