Innlent

Kynna umfangsmiklar aðgerðir á næstu dögum

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Formenn stjórnarflokkanna kynntu aðgerðir í þágu íslensks efnahagslífs í Ráðherrabústaðnum í síðustu viku. Frekari aðgerðir eru í farvatninu.
Formenn stjórnarflokkanna kynntu aðgerðir í þágu íslensks efnahagslífs í Ráðherrabústaðnum í síðustu viku. Frekari aðgerðir eru í farvatninu. Vísir/Vilhelm

Stjórnvöld hyggjast á allra næstu dögum kynna frekari aðgerðir til að bregðast við efnahagslegum afleiðingum af völdum kórónuveirufaraldursins. Samkvæmt heimildum fréttastofu er um nokkuð umfangsmiklar aðgerðir að ræða og stendur nú yfir mikil vinna í fjármálaráðuneytinu hvað þetta varðar.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu eru aðilar vinnumarkaðarins meðvitaðir um þá vinnu sem stendur yfir og að stórar aðgerðir séu í farvatninu. Stjórnvöld hafa þegar lagt fram nokkur frumvörp til að bregðast við áhrifum af völdum COVID-19. Þann 10. mars kynnti ríkisstjórnin aðgerðir í sjö liðum til viðspyrnu fyrir íslenskt efnahagslíf en þá þegar lá fyrir að eftir átti að útfæra nánar hvernig þær yrðu framkvæmdar.

Í yfirlýsingu frá Samtökum atvinnulífsins í dag segir að „ríkisstjórnin, Seðlabankinn, atvinnulífið og launafólk ró[i] að því öllum árum að minnka bæði skammtímaáhrif af COVID-19 á fólk og fyrirtæki og langtímaáhrif á þjóðarbúið.“

Í umfjöllun Kjarnans í dag er talað um þær aðgerðir sem til stendur að kynna á næstu dögum sem „risapakka til að bjarga íslensku atvinnulífi,“ sem séu „af áður óþekktri stærðargráðu.“ Mannlíf, sem fjallaði fyrst um málið í dag, segir aðgerðirnar snúast um „milljarða og jafnvel tugi milljarða.“ Þetta kemur heim og saman við heimildir Vísis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×