Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals, var gestur Sportið í kvöld í gær þar sem hann og Guðmundur Benediktsson ræddu stöðuna.
Þar á meðal sagði Heimir frá því að þjálfararnir í Pepsi Max-deildinni ræddu saman á samskiptamiðlum hvernig sé best að æfa á tímum kórónuveirunnar.
„Við höfum verið í góðum samskiptum þjálfararnir. Rúnar Páll er aðeins klókari en menn gefa honum. Hann setti upp síðu á Messenger þar sem flest allir þjálfararnir í efstu deild eru og menn ræða sín á milli hvernig er best að gera þetta,“ sagði Heimir og hélt áfram:
„Það var flott framtak hjá honum. Flestir þjálfararnir eru meðvitaðir um hvað hver og einn er að gera.“
Næsta spurning Gumma Ben var svo bara einfaldlega sú; hvernig er best að æfa á þessum tímum og hvernig gera Valsmenn það?
„Þú ert bara með stöðvar og svo færiru menn til í stöðvum. Sem dæmi í gær vorum við með eina stöð sem voru hlaupaæfingar, eina stöð og sendingar og svo voru sendingar plús skot. Það eru fáir menn á stöðunum svo það er ekki mikil nánd.“
„Þetta er það sem við erum að búa við í dag og að halda boltanum innan liðs og spil er út úr myndinni. Við virðum það.“
Sportið í kvöld er á dagskrá Stöðvar 2 Sports á þriðjudags-, miðvikudags- og fimmtudagskvöldum klukkan 20.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.