Erlent

Rússneski herinn aðstoðar Ítali í baráttunni við veiruna

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ítalskir hermenn á vaktinni vegna veirunnar um miðjan mánuðinn.
Ítalskir hermenn á vaktinni vegna veirunnar um miðjan mánuðinn. Vísir/getty

Stjórnvöld á Ítalíu hafa fyrirskipað lokun allra ónauðsynlegra verksmiðja og fyrirtækja í landinu vegna kórónuveirunnar. Þá mun Ítölum byrja að berast aðstoð frá rússneska hernum í baráttunni við veiruna í dag. Aðgerðir hafa jafnframt verið hertar svo um munar í Langbarðalandi, sem farið hefur verst allra héraða á Ítalíu út úr faraldrinum.

Ástandið á Ítalíu hefur versnað hratt síðustu vikur. Sjúkrahús eru yfirfull og í gær var tilkynnt um 793 dauðsföll af völdum veirunnar. Alls hafa því nær fimm þúsund látið lífið vegna veirunnar á Ítalíu. Ekki hafa fleiri dauðsföll vegna veirunnar verið skráð í landinu á einum sólarhring frá því að faraldurinn hófst þar fyrir um mánuði.

Sjá einnig: Inn­lit inn í þunga­miðju far­aldursins á ítölsku sjúkra­húsi

Giuseppe Conte forsætisráðherra Ítalíu tilkynnti um hertar aðgerðir stjórnvalda gegn faraldrinum í ávarpi til ítölsku þjóðarinnar í gærkvöldi. Hann sagði stöðuna sem upp er komin nú þá alvarlegustu sem Ítalir hefðu staðið frammi fyrir síðan í seinni heimsstyrjöldinni. Þá fyrirskipaði hann lokun allrar „ónauðsynlegrar“ starfsemi fram til 3. apríl næstkomandi hið minnsta. 

Nákvæm útfærsla á þessum hertu reglum verður kynnt í dag. Þá kvað hann verða tryggt að matvöruverslanir og apótek yrðu áfram opin.

Öll íþróttaiðkun bönnuð

Einnig var tilkynnt að Rússar myndu senda hermenn sína til Ítalíu í baráttunni við veiruna. Vladimír Pútín, forseti Rússlands, ræddi við Conte í gær og bauð fram aðstoð í formi sérfræðinga og farartækja sem sinnt geta sótthreinsun.

Þá hefur öll íþróttaiðkun verið bönnuð utandyra í Langbarðalandi á Norður-Ítalíu, sem farið hefur allra verst út úr faraldrinum. Bannið á jafnt við um íþróttaiðkun einstaklinga og hópa. Þá hefur notkun sjálfsala einnig verið bönnuð. Allar framkvæmdir í héraðinu hafa einnig verið stöðvaðar, fyrir utan sjúkrahúsframkvæmdir og vegavinnu.


Tengdar fréttir

Ítalía fer fram úr Kína í dauðsföllum

Dauðföll vegna kórónuveirufaraldursins á Ítalíu eru nú fleiri en í Kína þar sem veiran skaut fyrst upp kollinum. Alls hafa nú rúmlega 3.400 manns látið lífið á Ítalíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×