Erlent

Boris veikur af Covid-19 og fer í einangrun

Þórir Guðmundsson skrifar
Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands segist hafa fengið hita og þrálátan hósta og því látið prófa sig fyrir kórónuveirunni, samkvæmt ráði landlæknis.
Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands segist hafa fengið hita og þrálátan hósta og því látið prófa sig fyrir kórónuveirunni, samkvæmt ráði landlæknis. Getty

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands tilkynnti rétt í þessu að hann hefði fengið jákvæða niðurstöðu úr kórónuveiruprófi. Hann sagði í myndskeiði á Twitter að hann hefði fengið mild einkenni Covid-19 sjúkdómsins á síðasta sólarhring.

„Síðustu 24 tímana hef ég fengið mild einkenni og fengið jákvæða niðurstöðu úr kórónuveirusprófi. Ég hef ákveðið að fara í einangrun en ég mun áfram leiða viðbrögð ríkisstjórnarinnar með fjarfundabúnaði. Saman munum við sigrast á þessu,“ sagði Boris á Twitter. 

Talsmaður forsætisráðherrans segir að hann hafi ákveðið að láta prófa sig fyrir kórónuveirunni að ráðleggingu breska landlæknisins, Chris Whitty. Starfsmenn bresku heilsugæslunnar tóku prófið í Downing stræti 10, embættisbústað og skrifstofu forsætisráðherrans. 

Johnson sagði í Twitter ávarpi sínu að hann hefði verið með hita og þrálátan hósta og því farið í próf. Hann sagðist hafa tekið þátt í því að klappa fyrir heilbrigðisstarfsfólki í gærkvöldi og þakkaði bæði því, lögreglu og öðrum viðbragðsaðilum fyrir störf þeirra vegna kórónuveirunnar. 

„Þið þurfið ekkert að velkjast í vafa um að ég get haldið áfram og verið í sambandi við teymið í kringum mig og leitt baráttu þjóðarinnar gegn kórónuvírusnum,“ sagði Johnson í ávarpinu.

Uppfært klukkan 13:25 Heilbrigðisráðherrann Matt Hancock er sömuleiðis með Covid-19, vinnur að heiman og hvetur landsmenn til að fara að ráðleggingum yfirvalda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×