Hátt á fjórða hundruð ársverka verða til við auknar framkvæmdir í samgöngumálum á þessu ári samkvæmt aðgerðaráætlun stjórnvalda sem samþykkt var á Alþingi í gær. Sex og hálfur milljarður króna bætist við áður samþykkt framlög til málaflokksins.
„Um er að ræða fjölbreyttar nýframkvæmdir í samgönguinnviðum sem undirbúningur er vel á veg kominn og hægt að ráðast í strax en einnig viðhaldsverkefni. Verkefnin eru um land allt og taka til allra samgöngugreina, þ.e. vega, flugvalla og hafna. Stærstur hluti fjárfestingarinnar er í vegakerfinu, nýframkvæmdir, breikkun einbreiðra brúa og gerð hringtorga auk viðhalds vega,“ segir í samantekt samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.
Þegar í ár verður 1.860 milljónum kr. varið í vegaframkvæmdir og hönnun þeirra.
Þau verkefni sem ráðist verður í til viðbótar við gildandi fjárveitingar eru:
- Reykjanesbraut – Krýsuvíkurvegur-Hvassahraun
- Borgarfjarðarvegur
- Snæfellsnesvegur um Skógarströnd
- Suðurlandsvegur, Bæjarháls–Vesturlandsvegur
- Suðurlandsvegur, Fossvellir–Norðlingavað
- Hringvegur um Heiðarsporð (Biskupsbeygja)
- Vesturlandsvegur, Langitangi–Hafravatnsvegur
- Þverárfjallsvegur um Refasveit og Skagastrandarvegur um Laxá
- Breiðholtsraut frá Jaðarseli að Suðurlandsvegi (hönnun og undirbúningur)
- Breikkun Reykjanesbrautar frá Fjarðarhrauni að Mjódd (hönnun og undirbúningur)
Einum milljarði kr. verður veitt í að leggja bundið slitlag á tengivegi um allt land og einum milljarði til viðbótar í viðhald vega. Ráðuneytið segir betri tengivegi geta fækkað slysum, stytt ferðatíma og þeir skipti miklu máli fyrir þróun ferðamennsku.
„Undirbúningur framkvæmda gæti skapað 30 ársverk í hátæknistörfum. Framkvæmdin skapar 190 ársverk hjá verktökum á framkvæmdatíma á öllum landsvæðum,“ segir í samantekt ráðuneytisins. Þá verði lagðar 200 milljónir kr. í framkvæmdir við hringtorg við Landvegamót, á Eyrarbakkavegi og á Flúðum, öll á Suðurlandi.
Unnið að útýmingu einbreiðra brúa
Á þessu ári fara 700 milljónir aukalega í átak til að fækka einbreiðum brúm á landinu sem skipta hundruðum en samkvæt upplýsingum frá Vegagerðinni voru 36 einbreiðar brýr á Hringvegi eitt, langflestar á suður- og suðausturlandi. Verulegur árangur hafi náðst í að fækka þeim því árið 1990 hafi verið 140 einbreiðar brýr á Hringvegi 1.
Viðbótarframlagið sem Alþingi samþykkti í gær bætist við 3,3 milljarða sem þegar hafði verið ákveðið að setja í fækkun einbreiðra brúa á næstu tveimur árum. „Alls geta orðið til um 140 ársverk vegna framkvæmdanna (á þessu ári),“ segir í samantekt ráðuneytisins og verða því samtals til um 360 ársverk með aðgerðunum í heild.
Eftirtaldar brýr verða breikkaðar í ár:
- Köldukvíslargil á Norðausturvegi
- Gilsá á Völlum á Skriðdals- og Breiðdalsvegi
- Botnsá í Tálknafirði
- Bjarnadalsá í Önundarfirði
- Núpsvötn
- Stóra-Laxá á Skeiða- og Hrunamannvegi
- Skjálfandafljót á Hringvegi hjá Fosshóli við Goðafoss
Stórum flugvalla og hafnaframkvæmdum flýtt
Þá verða 750 milljónir kr. settar aukalega í auknar hafnarframkvæmdir á þessu ári. „Hafnir í Ólafsvík, Súðavík, Sandgerði og Þorlákshöfn verða dýpkaðar. Unnið verður í ýmsum grjótverkefnum á Bakkafirði, Sauðárkróki, í Njarðvík og Keflavík, ráðist í landfyllingu á Bíldudal og í stálþilsverkefni á Djúpavogi. Loks verður fjárfest í sjóvörnum á ýmsum stöðum vegna tjóns í óveðrum,“ segir í samantektinni.
Áður hefur verið greint frá auknum framlögum til uppbyggingar flugvalla þar sem stækkun flughlaðs og flugstöðvar á Akureyri og gerð akbrautar fyrir flugvélar á Egilsstöðum. Framkvæmdirnar á Akureyrarflugvelli miða að því að hægt verði að afgreiða innanlands- og millilandaflug samtímis og á Egilsstöðum að því að efla hlutverk flugvallarins sem varaflugvöllur. Þá verður einnig ráðist í framkvæmdir á Ísafjarðarflugvelli og Þórshafnarflugvelli.
Fjögur hundruð milljónum verður bætt í ljósleiðaravæðingu á vegum verkefnisins Ísland ljóstengt. „Markmiðið er sem fyrr að nær öll heimili og fyrirtæki í dreifbýli hafi aðgang að ljósleiðaratengingu og að því verkefni ljúki árið 2021,“ segir í samantekt ráðuneytisns. Þá verði 150 milljónum ráðstafað til samstarfs fjarskiptasjóðs og Neyðarlínunnar um uppbyggingu fjarskiptainnviða utan markaðssvæða og 100 milljónir bætist við það verkefni á næsta ári.
Þá verða framlög til sóknaráætlunar landshluta aukin um 200 milljónir á þessu ári sem ætluð eru til ráðstöfunar verkefna í einstökum landshlutum á sviði samfélags- og byggðamála byggi á áherslum heimamanna. Byggðastofnun fær einnig 100 milljóna aukaframlag í verkefnið brothættar byggðir.