Félag atvinnurekenda mótmælir hækkun á gjaldi og afnámi afsláttar hjá Matvælastofnun fyrir greiningu sína frá fyrirtækjum í innflutningi og framleiðslu matvæla sem tilkynnt hafi verið um í síðustu viku. Gjöldin hafi þegar hækkað mikið á undanförnum árum eða 29,1 prósent frá árinu 2016.
![](https://www.visir.is/i/191739BB9E3934BB09476AFE462D54A477414B362537A4C0E0FDCB81CB8BAA25_390x0.jpg)
Í tilkynningu frá FA segir að félagið hafi sent Matvælastofnun (MAST) erindi og mótmælt boðaðri hækkun opinbers eftirlitskostnaðar matvælafyrirtækja. Í síðustu viku hafi mörgum fyrirtækjum borist tölvupóstur frá MAST þar sem greint hafi verið frá fyrirhugaðri gjaldskrárhækkun vegna skimunar fyrir óæskilegum varnarefnum í matvælum. Í póstinum sé vakin athygli á því að rannsóknastofan hafi hækkað verð á greiningum og fellt niður afslátt sem eftirlitsaðilar höfðu. Reikningar vegna kostnaðar við greiningu hvers sýnis muni því óhjákvæmilega hækka.
Í erindi FA til MAST er þessari hækkun harðlega mótmælt. „Það vekur mikla furðu Félags atvinnurekenda að við núverandi aðstæður í íslenzku atvinnulífi, þar sem fyrirtæki berjast fyrir lífi sínu vegna afleiðinga heimsfaraldurs COVID-19, skuli boðuð hækkun opinberra eftirlitsgjalda. Stjórnvöld hafa undanfarnar vikur fremur leitazt við að draga úr kostnaði fyrirtækja,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri í bréfinu. „Hér er um að ræða aukinn kostnað fyrir innflytjendur og framleiðendur matvæla, sem mun óhjákvæmilega leiða til hækkana á verði matvöru, til viðbótar við verðhækkanir vegna gengisbreytinga.“
FA vekur ennfremur athygli á því að kostnaður við greiningu hvers sýnis hafi hækkað mikið undanfarin ár, úr 81.760 krónum árið 2016 í 105.578 krónur fyrr á þessu ári eða um 29,1%. Þá sé gjaldtaka vegna sýnatökunnar sjálfrar ótalin. Í sumum tilvikum séu teknir tugir sýna hjá sama fyrirtækinu sem þýði að kostnaður hvers fyrirtækis getui hlaupið á milljónum króna.
Félag atvinnurekenda leggur til ýmsar leiðir til að lækka eftirlitskostnaðinn. „Matvælafyrirtæki geta alltént ekki sætt sig við einhliða hækkanir opinbers eftirlitskostnaðar á þessum erfiðu tímum,“ segir í bréfi FA til MAST. Kristjáni Þór Júlíussyni landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra hafi verið sent afrit af bréfinu og fengið þær upplýsingar að málið sé til skoðunar í ráðuneytinu.