Erlent

Ákveðnar tegundir krabbameins stórauka hættu af Covid-19

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá Leishenshan-sjúkrahúsinu í Wuhan í Kína. Rannsóknin var gerð á hópi sjúklinga á fjórtán sjúkrahúsum í Hubei-héraði, sem Wuhan tilheyrir.
Frá Leishenshan-sjúkrahúsinu í Wuhan í Kína. Rannsóknin var gerð á hópi sjúklinga á fjórtán sjúkrahúsum í Hubei-héraði, sem Wuhan tilheyrir. Vísir/EPA

Sjúklingar með blóð- eða lungnakrabbamein eru allt að þrisvar sinnum líklegri en aðrir til að látast af völdum Covid-19, sjúkdómsins sem nýtt afbrigði kórónuveiru veldur. Rannsókn sem var gerð á krabbameinssjúklingum í Hubei-héraði í Kína bendir einnig til þess að þeir sem eru með krabbamein sem hefur dreift sér um líkamann sé einnig í sérstakri hættu vegna sjúkdómsins.

Krabbameinssjúklingar voru einnig líklegri til að veikjast alvarlega af Covid-19, þar á meðal að lenda á gjörgæslu eða í öndunarvél, en fólk án krabbameins. Aldur sjúklinganna var ekki eini áhættuþátturinn heldur einnig tegund krabbameins, á hvaða stigi það var og hvaða meðferð sjúklingarnir gengust undir vegna þess, að sögn Washington Post.

„Niðurstöðurnar benda til þess að sjúklingar með krabbamein séu mun viðkvæmari hópur í núverandi Covid-19-faraldri,“ segja höfundar greinar um rannsóknina sem koma frá Kína, Singapúr og Bandaríkjunum. Rannsóknin beindist að 105 krabbameinssjúklingum og 536 annars konar sjúklingum á sama aldri á fjórtán sjúkrahúsum í Hubei-héraði þar sem faraldurinn blossaði fyrst upp.

Í mestri hættu reyndust sjúklingar með hvítblæði, eitilfrumukrabbamein og mergæxli en þau mein ráðast öll á ónæmiskerfi líkamans. Sjúklingar með lungna- og maga- og garnakrabbamein eru einnig taldir í aukinni hættu á alvarlegum veikindum af völdum Covid-19.

Þá voru krabbameinssjúklingar sem höfðu gengist undir skurðaðgerð í meðferð sinni í meiri hættu á alvarlegum veikindum en þeir sem voru ekki með krabbamein. Þeir sem fóru í geislameðferð virtust ekki í meiri hættu en aðrir sjúklingar og fólk með krabbamein á frumstigi voru í svipaðri hættu og sjúklingar sem voru ekki með krabbamein.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×