Eins og Vísir greindi frá í dag þá á danska úrvalsdeildarfélagið í knattspyrnu, Hobro, á þeirri hættu að verða gjaldþrota ef ekki verður byrjað að spila í Danmörku fyrir sumarfrí. Að sögn stjórnarformanns félagsins verður liðið af fimm milljónum danskra króna verði allt blásið af.
Lars Kühnel, stjórnarformaður félagsins, var í viðtali við Viaplay Sport Live fyrr í kvöld og þar sagði hann að allir innan félagsins væru nú meðvitaðir um stöðuna og það væri verið að reyna vinna sig út úr vandræðunum.
Þar sagði hann að samkvæmt því sem félagið hefur reiknað út þá verða þeir af um fimm milljónum danskra króna ef boltinn rúllar ekki fyrir sumarfrí. Það samsvarar rúmlega 100 milljónum íslenskra króna á núverandi gengi.
Hobro-boss sætter tal på: Det handler om fem millioner #sldk https://t.co/YM4BwygmvM
— tipsbladet.dk (@tipsbladet) May 4, 2020
Orsökin er sú að rétthafinn að sjónvarpsréttinum í Danmörku ætlar ekki að greiða út allan samninginn verði ekki byrjað að spila fyrir sumarfrí. Einnig séu styrktaraðilar sem geta ekki staðist við sínar skuldbindingar og einhverjir vilja peninga til baka því liðið sé ekkert að spila.
„Það eru margir mismunandi þættir en okkar besta gisk er að þetta mun kosta okkur fimm milljónum króna, ef við byrjum ekki að spila aftur,“ sagði Lars.
Hobro er í 12. sætinu af fjórtán liðum með nítján stig í 24 leikjum.