Virgil van Dijk og Joe Gomez glíma við langtíma meiðsli og Joël Matip hefur einnig misst af mörgum leikjum á tímabilinu vegna meiðsla.
Í fjarveru þeirra hefur Klopp notað brasilíska miðjumanninn Fabinho í vörninni og hina ungu og óreyndu Rhys Williams og Nathaniel Phillips. Svo gæti farið að Klopp setti áfram traust sitt á þá en hann er ekki viss hvort Liverpool nái sér í miðvörð í þessum mánuði.
„Við erum með lausnir í hópnum en erum samt í vandræðum með meiðsli. Þegar þetta byrjar hættir það ekki,“ sagði Klopp.
„Við getum leyst þetta með þeim mönnum sem við höfum en ég veit ekki hvort við gerum eitthvað í janúarglugganum. Það er bara svoleiðis. Þetta er mjög erfiður gluggi. Ekki öll liðin búa yfir fjárhagslegu bolmagni. Það er ekkert vit í því að gera bara eitthvað.“
Þrátt fyrir meiðslavandræðin er Liverpool á toppi ensku úrvalsdeildarinnar með jafn mörg stig og Manchester United.
Með sigri á Southampton í kvöld nær Liverpool þriggja stiga forskoti á toppi deildarinnar. Leikurinn hefst klukkan 20:00.