Ein tilkynning til viðbótar barst í gær til Lyfjastofnunar um andlát eftir bólusetningu gegn Covid-19. Um er að ræða aldraða manneskju sem var bólusett í lok desember en lést fyrir skömmu.
„Þetta er eins og í hinum tilfellunum einstaklingur á hjúkrunarheimili, háaldraður,“ segir Rúna Hauksdóttir Hvannberg forstjóri Lyfjastofnunar.
Þetta er sjötta tilkynningin sem Lyfjastofnun fær um alvarleg atvik þar sem um var að ræða hugsanlegar aukaverkanir af bólusetningu bóluefnis Pfizer og BioNTech. Þar af eru fimm andlát og ein innlögn á sjúkrahús. Fram hefur komið að atvikin verði rannsökuð og er frumniðurstöðu að vænta frá Landlæknisembættinu í næstu viku.
Rúna segir að í þessu tilviki hafi andlátið orðið mun síðar eftir bólusetninguna en í hinum fjórum.
„Þeir sem hafa tekið að sér að rannsaka þetta mál þurfa að meta hvort að þetta tilvik verði tekið með í þá rannsókn eður ei,“ segir Rúna.
Sambærileg atvik tilkynnt í öðrum löndum
Lyfjastofnun óskaði í vikunni eftir upplýsingum frá öðrum löndum um hvort að sambærileg atvik hafi verið tilkynnt.
„Nú fyrir helgi hafði Noregur tilkynnt um sjö andlát og fjöldinn er svipaður í Svíþjóð og Danmörku. Þá hafa svona tilkynningar líka komið fram í Hollandi og Þýskalandi. Þetta voru allt háaldraðir einstaklingar eins og hér á landi en þar eins og hér voru þeir í forgangi fyrir bólusetningu gegn Covid-19,“ segir Rúna.
Rúna bendir á að útbreiðsla kórónuveirufaraldursins sé víðast hvar mun meiri en hér á landi. Þar sé því lögð áhersla á að takmarka útbreiðsluna og fást við sjálfan faraldurinn.
„Við höfum meiri tækifæri á að fylgjast með slíkum atvikum hér á landi því útbreiðsla faraldursins er minni hér eins og stendur,“ segir Rúna.
Aðspurð um hvernig verði brugðist við komi í ljós að það sé beint orsakasamband milli bólusetningarinnar og andlátanna segir Rúna:
„ Ég bendi á að í hverri viku látast um 18 manns á hjúkrunarheimilum enda eru þar aldraðir og oft veikir einstaklingar og það er erfitt að segja til um á þessu stigi hvort tengsl séu á milli andlátanna og bólusetningar. Ef það kemur svo í ljós, verður það skoðað nánar en ég get eiginlega ekki tjáð mig um það fyrr en það kemur út úr niðurstöðunum,“ segir Rúna.
Fleiri tilbúnari í bólusetningu hér
Hún segist ekki hafa fundið fyrir ótta við bólusetningar við Covid-19 vegna hugsanlegra alvarlegra aukaverkanna.
„Við erum lánsöm hér á landi að fólk ætlar í miklu hærra hlutfalli að láta bólusetja sig hér svo við höfum ekki heyrt af því,“ segir Rúna Hauksdóttir Hvannberg.