Álagið á heilbrigðiskerfið þar í landi hefur aukist undanfarnar vikur þar sem smitum fer enn fjölgandi. Nýtt afbrigði kórónuveirunnar, sem er talið mun meira smitandi en önnur afbrigði, hefur bætt gráu ofan á svart og hefur metfjöldi smita greinst undanfarnar vikur. Dauðsföll af völdum kórónuveirunnar í Bretlandi nálgast nú níutíu þúsund frá því að faraldurinn hófst.
Samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins óttast starfsfólk að geta ekki sinnt öllum þeim sem sækjast eftir læknisaðstoð á næstu vikum. Þannig gæti þurft að vísa einhverjum frá sem nauðsynlega þurfa að komast undir læknishendur.
Boris hafi sjálfur talað um siðferðilegt stórslys
Samtök heilbrigðisstarfsfólks hafa skrifað til ráðherra og bent þeim á að heilbrigðisstarfsmenn séu í hættu á að verða ákærðir fyrir að valda dauðsföllum með ólögmætum hætti.
Í bréfinu er jafnframt tekið fram að Boris Johnson forsætisráðherra hafi sjálfur sagt að of mikið álag á heilbrigðisstofnanir yrði „læknisfræðilegt og siðferðilegt stórslys“ þar sem starfsfólk yrði sett í þá stöðu að velja hverjir myndu lifa og hverjir myndu deyja.
„Yfirmenn á heilbrigðisstofnunum telja nú mikla hættu á því að heilbrigðiskerfið geti ekki staðið undir álaginu á næstu vikum. Meðlimir okkar óttast ekki aðeins að vera settir í þá stöðu, heldur einnig að þeir geti átt í hættu að lenda í sakamálarannsókn af hálfu lögreglunnar,“ segir í bréfinu til ráðherranna.
Kallað er eftir lagasetningu sem myndi vernda lækna og hjúkrunarfræðinga fyrir slíkum ákærum í ljósi þess að þeir gætu nú verið settir í aðstæður sem þeir hafa enga stjórn á. Þær leiðbeiningar sem nú séu í gildi veiti ekki nægilega vernd.
„Það að veita sjúklingum bestu mögulegu meðferð er ávallt í forgangi hjá öllum læknum. Við teljum það ekki rétt að heilbrigðissérfræðingar þurfi mögulega að glíma við þær siðferðilegu og andlegu afleiðingar sem fylgja því að taka ákvarðanir út frá því hvernig takmörkuðum gæðum er dreift, á sama tíma og þeir geti átt í hættu á að verða ákærðir.“