Ýmir fór fyrir íslenska liðinu í varnarleiknum en í sókninni gekk Íslandi afleitlega allan leikinn. Ýmir leit hins vegar á björtu hliðarnar:
„Baráttan í liðinu allan tímann… það var unun að horfa á þetta held ég. Ég er stoltur af okkur því við gefumst ekki upp, en þetta féll ekki með okkur sóknarlega, því miður. En liðsandinn, hvernig við byrjum og klárum leikinn, er frábært,“ sagði Ýmir í viðtali við RÚV í Egyptalandi.
„Við fáum bara á okkur 20 mörk í dag en ef að við skorum ekki fleiri þá skiptir þetta ekki máli. Við lögðum upp með ákveðna hluti í vörninni og mér fannst þeir ganga upp mjög vel. Auðvitað koma alltaf einhverjar línusendingar og skot, því þetta er frábært lið og með frábæra markmenn. Þeir voru bara betri í dag, því miður,“ sagði Ýmir við RÚV, og bætti við:
„Við erum ekki nógu grimmir heldur í hröðum upphlaupum. Það gengur því miður ekki nógu vel. Við verðum líka að hrósa Svisslendingum. Þeir spiluðu rosalega flotta vörn, með sterkan markmann á bakvið sig, og gerðu þetta vel.“