Hansen missti af leikjum Dana gegn Japönum og Króötum vegna veikindanna. Hann segist nú vera orðinn frískur og tilbúinn í leikinn gegn heimaliði Egypta á morgun.
„Ég er eiginlega hissa á því hversu vel mér líður núna. Loksins svaf ég alla nóttina. Það var góð tilbreyting að vakna við vekjaraklukku en ekki einhvers konar „innri vekjaraklukku“. Ég hef það gott núna,“ sagði Hansen.
„Ég held ég hafi aldrei orðið svona veikur. Þetta hefur verið brekka en loksins í gær fékk ég matarlyst sem var líklega fyrsta skrefið í rétta átt.“
Hansen lýsti svo einkennum þessarar svæsnu magakveisu. „Ég átti erfitt með að halda mat niðri. Þetta hefur verið strembið. Fyrsta nóttin var erfiðust með höfuðverk, beinverki og hitaeinkenni. Síðan kom reyndar í ljós að ég var ekki með hita.“
Magakveisa hefur herjað á fleiri leikmenn í danska hópnum og á fleiri lið, meðal annars Slóveníu. Tólf leikmenn slóvenska liðsins fengu magakveisu á laugardaginn, daginn fyrir úrslitleik gegn Egyptalandi um sæti í átta liða úrslitum.
Slóvenar sökuðu Egypta um að hafa eitrað fyrir sér en síðan hafa borist fréttir af því að slóvenska liðið hafi pantað sér pizzu frá utanaðkomandi veitingastað sem hafi líklega orsakað magakveisuna.
Þrátt fyrir að vera án Hansens unnu Danir örugga sigra á Japönum og Króötum. Þeir hafa unnið alla leiki sína á HM.
Eins og áður sagði er Hansen búinn að ná heilsu og verður með í leiknum gegn Egyptalandi á morgun.
„Ég er góður en það er erfitt að geta sér til um hversu klár þú verður þegar út í leikinn er komið. Egyptarnir spila mjög hratt og ég verð að finna hvernig ég verð í leiknum,“ sagði Hansen.