Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, mun í dag kynna niðurstöður starfshóps á vegum Vegagerðarinnar, sem var falið að meta tvo valkosti um legu Sundabrautar.
Guðmundur Valur Guðmundsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar og formaður starfshópsins, fer síðan í stuttu máli yfir skýrslu hópsins og forsendur hennar.
Vegagerðinni var á síðasta ári falið að leiða vinnu nýs starfshóps fulltrúa Reykjavíkurborgar, samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins og Faxaflóahafna um að endurmeta og skoða tvo kosti um legu Sundabrautar. Vinnan átti að byggja á starfi starfshóps sem skilaði tillögum um mögulega legu og taldi jarðgöng fýsilegasta kostinn. Hinn kosturinn væri lágbrú sem þverar hafnarsvæðið í Kleppsvík.
Kynningarfundi um Sundabraut verður streymt beint á Facebook-síðu ráðuneytisins kl. 13:30 og má sjá kynninguna hér að neðan.