Samkvæmt dagbók lögreglu ók tjónvaldur burt af vettvangi en var handtekinn skömmu síðar á heimili sínu. Er hann grunaður um ölvun við akstur og var að lokinni sýnatöku vistaður í fangageymslu lögreglu.
Tjónþoli hugðist sjálfur leita á slysadeild vegna eymsla. Bifreið hans er mikið tjónuð og var dregin af vettvangi.
Lögregla var einnig kölluð til vegna manns í annarlegu ástandi sem búinn var að brjóta brunaboða í ráðhúsinu. Hann reyndist einnig hafa tæmt úr slökkvitækjum í bílageymslu. Maðurinn var meiddur á hendi og fluttur á slysadeild.
Um kl. 22.30 var tilkynnt um útitónleika í hverfi 101 þar sem hópur fólks var saman kominn. Tónleikahaldari verður kærður fyrir brot á lögreglusamþykkt og brot á sóttvarnalögum en hann hafði ekki heimild fyrir tónleikahaldinu og þá hefur lögregla áður sinnt samskonar tilkynningum, samkvæmt dagbók.
Kl. 17 og 20 var lögregla kölluð til vegna innbrota og þjófnaðar í tvö fjölbýlishús í hverfi 220. Í fyrra tilvikinu var brotist inn í sjö geymslur og því síðara í fjórar geymslur. Hurðir voru spenntar upp og brotnar.
Í seinna tilvikinu var meðal annars stolið rafskútu og vefmyndavél.