
Jón Ingi er framkvæmdastjóri Byggingarfélagsins Kötlu en jafnframt formaður byggðaráðs Dalvíkurbyggðar og er meðal íbúa sem segja okkur frá samfélaginu á Árskógsströnd í þættinum Um land allt á Stöð 2.
Þar byggðust þorpin Árskógssandur og Hauganes upp á sjósókn meðfram hefðbundnum landbúnaði í sveitinni. Þá sögu þekkir Pétur Sigurðsson, gamalreyndur trillukarl og útgerðarmaður, en forfeður hans voru í hópi bænda af Árskógsströnd sem réru til fiskjar meðfram búskapnum.

Meðan fiskvinnsla hefur lagst af á Árskógssandi eru Bjórböðin og Bruggsmiðjan Kaldi orðin stærsta fyrirtækið, en hjónin Agnes Anna Sigurðardóttir og Ólafur Þröstur Ólafsson stofnuðu Kalda fyrir fimmtán árum. Agnes er framkvæmdastjóri og sýnir okkur starfsemina ásamt syni þeirra Sigurði Braga, sem er bruggmeistari Kalda.

Á Hauganesi kynnumst við saltfiskverkendum sem þróað hafa sjávarútveg yfir í ferðaþjónustu. Þar monta heimamenn sig einnig af því að hafa verið fyrstir til að hefja hvalaskoðun á Íslandi.

Við heimsækjum sveitabæ þar sem fjósinu var breytt í gistihús, hittum bændur sem tekið hafa upp skógrækt og geitabúskap og fáum það svo útskýrt hvernig það gerðist að norskur konungur lét líf sitt á Árskógsströnd, en jörðin Kálfskinn státar af einu konungsgröfinni á Íslandi.
Hér má sjá kynningarstiklu þáttarins, sem er á dagskrá Stöðvar 2 á mánudagskvöld: