Verkfræðinemar marseruðu í gegn um miðborg Yangon, stærstu borgar landsins, klæddir hvítum fötum og haldandi á skiltum þar sem krafist var að Aung San Suu Kyi, lýðræðislega kjörnum leiðtoga landsins, yrði sleppt úr haldi. Suu Kyi hefur verið í haldi herforingjastjórnarinnar frá 1. febrúar þegar herinn framdi valdarán.
Mótmælin eru meðal þeirra stærstu sem sést hafa í landinu undanfarna áratugi. Það er óhætt að segja að mótmælin í dag hafi verið mikið sjónarspil en í Yangon var heilum flota af rútum keyrt um göturnar og flautum þeirra flautað í mótmælaskini.
Mótmælendur keyrðu í gegn um höfuðborgina Naypyitaw á mótorhjólum og bílum og í bænum Dawei spiluðu tónlistarmenn á trommur. Í Waimaw héldu mótmælendur uppi fánum og sungu byltingarsöngva.
Valdaránið og mótmælin hafa vakið athygli alls heimsins en Tókíóbúar gengu kröfugöngu í dag til stuðnings mótmælendum í Mjanmar. Margir héldu á myndum af Suu Kyi og segja skipuleggjendur göngunnar að um sé að ræða stærstu og fjölmennustu kröfugöngu í sögu Japan.
Meira en fjögur þúsund manns tóku þátt í göngunni og kyrjuðu mótmælendur „hjálpið okkur að bjarga Mjanmar“ og „stöðvum glæpi gegn mannkyni.“ Þetta eru ekki fyrstu mótmælin til stuðnings mótmælendum í Mjanmar frá valaráninu en nokkrar kröfugöngur og mótmæli hafa verið haldin í Japan síðan þá. Sérstaklega hafa það verið mjanmarskir íbúar í Japan.