Könnunin var unnin fyrir ríkislögreglustjóra og lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Í úrtakinu voru fjögur þúsund landsmenn, átján ára og eldri og svarhlutfall var 57 prósent. Ríkislögreglustjóri hefur nú birt skýrslu upp úr niðurstöðum könnunarinnar.
„Við erum kannski ekki að sjá mikla fjölgun í því að verða fyrir alvarlegu heimilisofbeldi, eins og ógnun, hótun, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi, um tvö prósent íbúa eru að verða fyrir slíku ofbeldi en við erum að sjá fjölgun í andlegu heimilisofbeldi, en um sjö prósent landsmanna eru að verða fyrir slíku ofbeldi,“ segir Guðbjörg Bergsdóttir verkefnisstjóri hjá ríkislögreglustjóra.
Það hafi komið á óvart hve hátt hlutfall býr enn við ofbeldisaðstæðurnar. „Um fimmtíu prósent þeirra sem hafa orðið fyrir ofbeldinu sagðist enn búa við aðstæðurnar en var um þriðjungur í fyrri könnunum,“ segir Guðbjörg.
Talið er að kórónuveirufaraldurinn hafi áhrif. „Við vitum það ekki alveg fyrir víst en það gæti verið að aukið atvinnuleysi og óvissa verði til þess að fólk komist síður út af heimilinu,“ segir Guðbjörg og bætir við að þetta sé áhyggjuefni.
„Viðbragðsaðilar hafa áhyggjur af þessu. Við þurfum að halda vök okkar,“ segir Guðbjörg.