Í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag minntist Karl Gauti á nýlegt manndráp í Reykjavík um síðustu helgi þar sem meintur gerandi og sá sem var myrtur væru báðir af erlendum uppruna. Rifjaði þingmaðurinn upp skýrslur lögreglunnar um stöðu mála frá árunum 2017 og 2019 í þessu samhengi.

Þar kæmi fram að lögreglan teldi umsvif skipulagðrar glæpastarfsemi vera að aukast á sama tíma og lögreglan hefði ekki nægan mannafla til að bregðast við þessari þróun. Vitnaði Karl Gauti í kafla í skýrslu ríkislögreglustjóra þar sem rætt var um starfsemi erlendra brotahópa.
„Í þeirri skýrslu kemur fram að aukning hafi orðið í innflutningi á kókaíni. Hana megi taka sem dæmi um umsvif skipulagðra brotahópa með erlendar tengingar. Þar kemur einnig fram að hlutur erlendra hópa á innflutningi og framleiðslu á amfetamíni hér á landi sé stór og jafnvel ráðandi,“ sagði Karl Gauti og taldi stjórnvöld ekki hafa tekið þessa stöðu nægjanlega alvarlega.
„Hver hafa viðbrögðin verið við þessum endurteknu viðvörunum lögreglunnar síðan 2017,“ spurði þingmaðurinn.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra sagðist vilja að Íslandi yrði áfram eitt friðsamasta ríki heims. Það hefði verið brugðist við ábendingum lögreglunnar.
„Við höfum hafið mikla vinnu með ríkislögreglustjóra og undir forystu hans. Sett á laggirnar hóp með öllum aðilum til að tryggja samræmingu og samhæfingu og getu lögreglunnar til að bregðast við skipulagðri brotastarfsemi hér á landi. Ég ítrekaði síðast í október í bréfi til allra lögreglustjóra á landinu að hafa þessi mál í forgangi. Að gæta þess að það væri nægjanlegur mannafli til að sinna þessu og hef varið miklum fjármunum í að tryggja tækjabúnað og getu. Bæta bæði fræðslu og þjálfun lögreglumanna til að takast á við þessa vá,“ sagði dómsmálaráðherra á Alþingi í dag.