Fjölmenni var í húsnæði Neyðarlínunnar á Hólmsheiði í hádeginu í dag þegar björgunarsveitir fengu rafstöðvarnar afhentar. Afhendingin er liður í átaki stjórnvalda um úrbætur á fjarskiptainnviðum eftir mikil óveður fyrir rúmu ári.
„Í desember 2019 gerðust hlutir sem við vildum alls ekki upplifa, fólk sem var í vanda, rafmagnslaust og gat heldur ekki náð í nokurn. Það er eitthvað sem við viljum ekki hafa,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra í dag.
Rafstöðvarnar hefðu meðal annars komið að góðum notuð þegar miklar aurskriður féllu á Seyðisfirði rétt fyrir jól.
„Þetta hefði hjálpað okkur gríðarlega, okkar talstöðvarsamband, tetrasambandið og neyðarlínan og allt sem fer þar í gegnum er í björgunarsveitarhúsinu sem lenti í flóðinu, skriðunni. Þannig að okkur bráðvantaði þetta,“ sagði Davíð Kristinsson, björgunarsveitarmaður.
Í hvað eru svona stöðvar notaðar?
„Þetta er til að halda samskiptum í lagi, hvort sem það er síma- eða talstöðvasamband, til að geta verið í sambandi við umheiminn, til að láta vita af vá eða hvað sem það er. Samskipti okkar í björgunarsveitunum eru auðvitað gríðarlega mikilvæg þannig að þetta er til að halda samskiptum í lagi.“