Handbolti

Aron: Geir fékk heila­hristing og er með brotna tönn

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Aron er að gera góða hluti á Ásvöllum.
Aron er að gera góða hluti á Ásvöllum. vísir/vilhelm

Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, var sáttur eftir sigur sinna manna á ÍR í Austurbergi í kvöld. Lokatölur leiksins 26-29 fyrir Haukum.

„Ég er ánægður með tvo punkta. Við vinnum leikinn og þetta var mjög erfiður leikur. ÍR-ingarnir stóðu sig mjög vel, börðust allan leikinn og voru mjög klókir. Kiddi er að gera góða hluti hérna.“

Hauka-liðið var langt frá sínu besta formi í þessum leik og var allt annað að sjá liðið í dag en á móti Selfossi í síðustu umferð.

„Við vorum ekki á sama krafti og í síðasta leik, einbeitingalega séð. Við byrjum í 5-1 vörn og þá fannst mér við fá tækifæri til að komast nokkrum mörkum yfir. Við förum illa með boltann sóknarlega. Vörnin verður algjört gatasigti og þar með lítil markvarsla. Við stóðum betur í 6-0 vörninni.“

Geir Guðmundsson, leikmaður Hauka lenti í samstuði við Eyþór Vestmann, leikmann ÍR og var fluttur með sjúkrabíl. Eyþór Vestmann uppskar tveggja mínútna brottvísun en kallað var eftir rauðu spjaldi.

„Geir fékk heilahristing og er með brotna tönn. Manni fannst þetta frekar vægur dómur. Miðað við það sem maður heyrir var þetta rautt spjald. Einu sinni var alltaf gefið rautt, þrátt fyrir að menn færu óviljandi í andlitið á mönnum. Þrátt fyrir að það sé óviljandi á líka að taka á því,“ sagði Aron að lokum.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×