Netanjahú tilkynnti í síðustu viku að hann ætlaði að senda bóluefni til annarra ríkja, án þess að nefna þau. Fjölmiðlar í landinu hafa sagt að þar sé um að ræða ríki sem hafi stutt kröfu Ísraels um að hin umdeilda borg Jerúsalem væri höfuðborg ríkisins.
Sú yfirlýsing olli miklu fjaðrafoki í Ísrael. Áætlunin var stöðvuð en þá höfðu þúsundir skammta verið sendir til Hondúras og jafnvel Tékklands, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.

Mandelblit sendi bréf í dag til þjóðaröryggisráðgjafa Ísraels um að forsætisráðherrann hefði átt að ráðfæra sig við aðra ráðherra vegna ákvörðunarinnar. Bréfið var opinberað af dómsmálaráðuneytinu.
Þar segir dómsmálaráðherrann að hann hafi ekki verið spurður um það hvort að Netanjahú gæti samkvæmt lögum sent skammta úr landi og að hann hefði ekki fengið neinar áætlanir varðandi þessar sendingar varðandi það hverjir tækju við þeim, hvað Ísrael fengi fyrir þær og svo framvegis.
Mandelblit sagði að um ríkiseigur væri að ræða og því þyrfti að fylgja lögum varðandi sölu þeirra, samkvæmt frétt Times of Israel. Lögum yrði að fylgja frá upphafi til enda og málið yrði að ræða innan utanríkis- og fjármálaráðuneyta fyrst.
Netanjahú gerði samkomulag við lyfjafyrirtækið Pfizer í fyrra, sem er ekki ósvipað því að Íslendingar reyndu að gera. Það tryggði Ísraelum næga skammta af bóluefni til að bólusetja alla íbúa, eldri en sextán ára, og hét Netanjahú að bólusetningum yrði lokið fyrir lok marsmánaðar.
4,7 milljónir íbúa, af 9,3 milljónum, hafa fengið fyrri skammt bóluefnisins og 3,4 milljónir þann seinni.