Umrædd félög eru KR, Valur, FH, Breiðablik, Stjarnan, Víkingur R., KA, Fylkir, ÍA og Leiknir R., það er öll félögin í Pepsi Max-deildinni nema HK og Keflavík.
Mikil óánægja er með að tillaga stjórnar KSÍ um að taka upp úrslitakeppni í efstu deild hafi verið felld á ársþingi sambandsins um helgina. Tillaga Fram um að fjölga liðum í efstu deild úr tólf í fjórtán var einnig felld á ársþinginu.
Forráðamenn KR, Vals og FH hafa lýst yfir óánægju sinni með hversu mikið félög utan efstu deildar höfðu að segja um fjölgun liða í deildinni. Formaður FH, Viðar Halldórsson, talaði um að það hafi verið hálfgerð hefndaraðgerð að fella tillögu stjórnar KSÍ.
Formenn knattspyrnudeilda KR og Vals, Páll Kristjánsson og E. Börkur Edvardsson, hafa gagnrýnt þá breytingu sem hefur orðið á ÍTF, hagsmunasamtökum félaganna í efstu tveimur deildum karla og kvenna.
„Hvers konar hagsmunasamtök eru það sem eiga að vera gæta hagsmuna sterkustu og stærstu félaga landsins sem er í rauninni stjórnað af neðri deildum. Við eigum öll okkar málsvara sem er knattspyrnusambandið og Toppfótbolti er hugsað sem hagsmunasamtök efstu deildar karla gagnvart knattspyrnusambandinu. Þegar öll félög sem eru með barna og unglinga eða meistaraflokksstarf eru aðilar að þessum samtökum þá þjónar það engum tilgangi,“ sagði Páll í Sportpakkanum á þriðjudaginn.
„Ég sagði það um daginn og stend við þið það hvenær sem er að Íslenskur Toppfótbolti þjónar engum tilgangi í dag.“
Ekki er langt síðan aðalfundur ÍTF fór fram þar sem Orri Hlöðversson, formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks, var kjörinn formaður samtakanna. Hann tók við formennsku af Víkingnum Haraldi Haraldssyni.