Þetta staðfestir Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans, í samtali við Vísi.
Greint var frá því fyrr í dag að starfsmaður á deildinni hefði greinst með veiruna í gær og um fimmtíu starfsmenn og sjúklingar væru í sóttkví vegna smitsins. Gengið er út frá því að um breska afbrigði veirunnar sé að ræða.
Boðað var til upplýsingafundar í dag þar sem farið var yfir stöðu mála. Auk starfsmannsins á Landspítalanum hafði einn annar smitast utan sóttkvíar, en talið er að rekja megi smitin til sameiginlegs snertiflatar í stigagangi fjölbýlishúss.
Grunur er um að báðir hinna smituðu hafi með óbeinum hætti smitast af veirunni í gegnum einstakling sem kom til landsins 26. febrúar. Viðkomandi var með neikvætt PCR-próf og greindist neikvæður fyrir veirunni í fyrstu skimun á landamærum við komuna til landsins. Hann greindist hins vegar jákvæður í seinni skimun fimm dögum síðar.
Umfangsmikil smitrakning hefur staðið yfir vegna smitanna og nær hún einnig til tónleika í Hörpu á föstudag. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði lítið þurfa til svo hópsmit kæmi upp en staðan myndi skýrast betur á þriðjudag.
„Mikil rakningarvinna hefur verið í gangi um helgina og eru nokkrir tugir komnir í sóttkví. „Það þarf lítið að koma til, til að koma af stað nýrri hrinu og jafnvel nýrri bylgju,“ sagði Þórólfur. „Við munum reyna allt sem við getum til að koma í veg fyrir umrætt smit.“