Fótbolti

Styttist í að Svava Rós snúi aftur eftir að hafa meiðst í fyrsta leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Svava Rós í einum af sínum 24 leikjum fyrir íslenska landsliðið.
Svava Rós í einum af sínum 24 leikjum fyrir íslenska landsliðið. Vísir/Vilhelm

Íslenska landsliðskonan Svava Rós Guðmundsdóttir söðlaði um fyrr á þessu ári og skipti um félag. Fór hún frá Kristianstad í Svíþjóð til Bordeaux í Frakklandi. Strax í fyrsta leik fyrir franska félagið meiddist Svava Rós.

Fótbolti.net ræddi við hina 25 ára gömlu Svövu Rós í dag um meiðslin og hvernig staðan á henni er. Hin 25 ára gamla Svava Rós hefur verið mikið meidd undanfarið og missti í raun af nær öllu tímabilinu í Svíþjóð áður en hún ákvað að halda til Bordeaux þar sem hún skrifaði undir 4. janúar á þessu ári.

Er hún ein af fimm Íslendingum í frönsku úrvalsdeildinni. Sara Björk Gunnarsdóttir er að sjálfsögðu í liði Evrópumeistara Lyon. Þá eru þær Anna Björk Kristjánsdóttir, Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir allar í Le Havre.

Þann 23. janúar lék Svava Rós sinn fyrsta leik fyrir Bordeaux í einkar þægilegum 7-1 sigri á Reims. Íslenska landsliðskonan kom inn af bekknum þegar hálftími lifði leiks en í uppbótartíma leiksins meiddist Svava á kálfa og hefur verið frá síðan.

„Staðan á mér er sú að ég fæ aftur rifu á kálfann í lok janúar, á 94. mínútu í fyrsta leik mínum fyrir Bordeaux. Ég er búin að vera í endurhæfingu síðan, það er búið að ganga erfiðlega og taka lengri tíma en áætlað var. Þetta lítur samt aðeins betur út núna og vonandi get ég farið að æfa aftur með liðinu bráðlega.“

„Ég get hlaupið og er búin að vera að hlaupa núna í þrjár vikur en hef í kjölfarið stífnað mikið upp í kálfanum eftir á. Það er búið að vera skárra í þessari viku þannig vonandi allt að koma,“ sagði Svava að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×