Þegar við rennum í hlað eru Árni og þrettán ára gamall sonur hans, Heimir Sigurpáll, að saga stærðarinnar rekaviðardrumb niður í borðvið. Í gegnum aldirnar þótti Sveinungsvík með verðmætari jörðum vegna alls rekans sem barst hingað á fjörur norðan úr höfum alla leið frá Síberíu.

Sveinungsvík er meðal þeirra jarða sem heimsóttar eru í þættinum Um land allt á Stöð 2. Fjallað er um mannlíf fyrr og nú í víkunum í Svalbarðshreppi við vestanverðan Þistilfjörð. Árni er fráskilinn en sonurinn býr bæði hér og hjá móður sinni á Akureyri.
Feðgarnir segja okkur frá búskapnum í Sveinungsvík og pabbinn frá jeppasportinu. Sonurinn Heimir leikur fyrir okkur á harmonikku og okkur þykir hann ágætlega fær miðað við að hann er nýbyrjaður í námi á hljóðfærið. Strákurinn segist raunar ekki vera nútímamaður heldur fremur nítjándu- eða átjándualdar maður og alltaf hafa dáðst að torfbæjum.

„Aðrir hafa playstation og tölvu en ég hamar og nagla,“ segir hann eftir að hafa gengið með okkur um sveitabæinn sem hann er búinn að smíða. Hann velkist ekki í vafa um hvað hann ætlar að verða þegar hann verður stór.
„Bóndi og harmonikkuleikari,“ er svarið.
Hér má sjá sjö mínútna myndskeið úr þættinum: