Fótbolti

Meistararnir fá ekki keppnisleyfi og gamla lið Eiðs Smára græðir á því

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þessir stuðningsmenn Shijiazhuang Ever Bright F.C. tóku vel á móti Eiði Smára Guðjohnsen á flugvellinum þegar hann kom til Kína á sínum tíma.
Þessir stuðningsmenn Shijiazhuang Ever Bright F.C. tóku vel á móti Eiði Smára Guðjohnsen á flugvellinum þegar hann kom til Kína á sínum tíma. Getty/Visual China Group

Jiangsu FC mun ekki verja titil sinn í kínversku ofurdeildinni því félagið er ekki á listanum yfir lið sem fengu keppnisleyfi fyrir komandi tímabili.

Jiangsu varð kínverskur meistari í fyrsta sinn í sögu félagsins á síðustu leiktíð með því að vinna Guangzhou Evergrande í úrslitaleik.

Í framhaldinu tilkynntu eigendurnir í Suning fyrirtækinu hins vegar að þær ætluðu að hætta að setja pening í félagið frá og með lok febrúar.

Þá voru góð ráð dýr. Suning tilkynnti að félagið myndi hætta en nýr eignandi hefur síðan reynt að safna fjármagni til að halda rekstri þess áfram.

Tíminn var aftur á móti of naumur og nýjum eiganda tókst ekki að redda fjármálunum fyrir lokafrest kínversku deildarinnar sem hefst í næsta mánuði.

Þegar keppnisleyfin voru gefin út þá kom í ljós að meistarar Jiangsu FC fá ekki að verja titil sinn á komandi tímabili.

Viðar Örn Kjartansson lék með Jiangsu árið 2015 og varð þá bikarmeistari með liðinu. Hann skoraði þá 13 mörk í öllum keppnum þetta eina tímabil.

Jiangsu var eitt af sex atvinnumannafélögum í Kína sem fengu ekki keppnisleyfi en eitt af þeim er lið Beijing Renhe sem spilaði í efstu deild árið 2019. B-deildarliðin Taizhou Yuanda og Inner Mongolia Zhongyou fá heldur ekki keppnisrétt ekki frekar en C-deildarliðin Jiangsu Yancheng og Shenzhen Bogang.

Cangzhou Mighty Lions, áður Shijiazhuang Everbright, fagnaði þessum fréttum. Liðið féll úr deildinni í fyrra en komst nú upp án þess að spila því liðið fær sæti Jiangsu.

Eiður Smári Guðjohnsen spilaði einmitt með liði Shijiazhuang Everbright í kínversku deildinni frá 2015 til 2016 og skoraði þá eitt mark í fjórtán leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×