„Þetta gekk bara mjög vel í dag. Það kom margt fólk á svæðið en umferðin varð aldrei þung þrátt fyrir það og bílastæðin höfðu undan,“ segir Sigurður Bergmann, aðalvarðstjóri í Grindavík, í samtali við fréttastofu.

Hann segir ómögulegt að segja til um hversu margir hafi sótt gosstöðvarnar heim í dag. Fólk hafi hins vegar komið að þeim í allan dag og enn fleiri síðdegis en fyrr um daginn.
Þá nýtti fjöldi fólks sér að koma að svæðinu með hópferðarrútum, sem komu að stöðvunum í fyrsta sinn í dag.
„Fólk hefur greinilega áttað sig á því þegar leið á daginn að rútuferðirnar stæðu til boða. Fólki fór að fjölga með hverri ferðinni,“ segir Sigurður. Hægt var að leggja bílum sínum í Grindavík og taka þaðan rútu eftir Suðurstrandarvegi.
Egill Aðalsteinsson, myndatökumaður fréttastofu, var á svæðinu í dag og tók hann myndir af gestum og gangandi við gosstöðvarnar.





