Aðgerðastjórn í Grindavík hefur þegar hafið störf vegna útkallsins og þeir björgunarsveitarhópar sem voru á svæðinu hafa hafið leit að göngumönnunum og eru þegar mættir að gosstöðvum. Aðrar björgunarsveitir eru á leið á staðinn. Þetta staðfestir Davíð Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við fréttastofu.
Um leið og hjálparbeiðni barst sendi aðgerðastjórn í Grindavík björgunarsveitarfólk sem var við gosstöðvarnar af stað í leit og sendu strax út útkall til annarra björgunarsveita.
„Það eru strax mættir hópar upp að gosstöðvunum sem hafa þegar hafið leit að þessum mönnum,“ segir Davíð.
„Af því að það næst enn eitthvað símasamband við þá er verið að vinna í því að staðsetja þá með einhverjum vísbendingum,“ segir Davíð.