Spenna á milli Rússa og Úkraínumanna hefur farið vaxandi undanfarna daga eftir að stjórnvöld í Kreml hófu mikla liðssöfnun við landamærin. Rússar styðja við bakið á uppreisnarmönnum í austanverðri Úkraínu en átök þeirra við úkraínska stjórnarherinn hafa kostað þúsundir mannslífa undanfarin ár. Uppreisnin hófst eftir að Rússar innlimuðu Krímskaga árið 2014.
Biden ítrekaði stuðning Bandaríkjastjórnar við úkraínska bandamenn sína í símtali þeirra Pútín í dag samkvæmt opinberri yfirlýsingu Hvíta hússins. Lýsti hann áhyggjum af hernaðaruppbyggingu Rússa á Krímskaga og við landamæri Úkraínu. Bandaríkin ætluðu sér ekki að hvika frá skuldbindingu sinni gagnvart fullveldi Úkraínu og friðhelgi landssvæðis hennar.
Bandaríkin hafa þegar brugðist við liðssöfnun Rússa með því að senda herskip á Svartahaf. Það fer fyrir brjóstið á stjórnvöldum í Kreml. Sergei Ríabkov, aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands, sagði herskipasiglingarnar ögrun í dag og að Bandaríkjamönnum væri hollast að halda sig víðsfjarri Krímskaga og Svartahafsströnd Rússlands.
NEW: POTUS and Putin spoke today for the second time since Biden took office. Biden also made clear that the United States will act firmly in defense of its national interests in response to Russia s actions... pic.twitter.com/eqrM3tKWV9
— Natasha Bertrand (@NatashaBertrand) April 13, 2021
Vill stöðugt og fyrirsjáanlegt samband við Rússland
Í símtalinu Lagði Biden jafnframt áherslu á stjórn hans ætli sér að ganga hart fram í að tryggja hagsmuni sína gagnvart aðgerðum Rússa, þar á meðal í tengslum við tölvuárásir og afskipti af kosningum.
Rússar hafa undanfarið staðið að baki umfangsmiklum tölvuárásum og kosningaafskiptum í Bandaríkjunum og fleiri vestrænum ríkjum. Bandaríska leyniþjónustan telur að stjórnvöld í Kreml hafi reynt að koma höggi á Biden sjálfan fyrir kosningarnar vestanhafs í haust, meðal annars með því að dreifa upplýsingum sem áttu draga upp dökka mynd af syni Biden, Hunter. Pútín Rússlandsforseti hafi persónulega gefið skipun um það.
Þrátt fyrir það lýsti Biden því markmiði sínu að byggja upp „stöðugt og fyrirsjáanlegt“ samband við Rússland í samræmi við hagsmuni Bandaríkjanna, að því er segir í tilkynningu Hvíta hússins.
Í því skyni lagði Biden til að þeir Pútín funduðu utan Rússlands eða Bandaríkjanna á næstu mánuðum til þess að ræða öll helstu deilumál ríkjanna tveggja.