Fótbolti

Kol­beinn fann marka­skóna eftir hafa leitað í 621 dag

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kolbeinn átti mjög góðan leik með Gautaborg í gærkvöld.
Kolbeinn átti mjög góðan leik með Gautaborg í gærkvöld. @IFKGoteborg

Landsliðsframherjinn Kolbeinn Sigþórsson skoraði bæði mörk Gautaborgar í 2-0 sigri á hans gamla félagi AIK í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í gær. Alls eru 621 dagur síðan Kolbeinn þandi síðan netmöskvana með félagsliði sínu.

Kolbeinn skoraði tvívegis í fyrri hálfleik og var Gautaborg 2-0 yfir í hálfleik. Reyndust það lokatölur leiksins. Kolbeinn var gripinn í viðtal í hálfleik þar sem hann sagðist stefna á þrennuna en það gekk ekki að þessu sinni.

Kolbeinn fór svo af velli á 63. mínútu enda enn að komast í sitt gamla form. Það eru miklar gleðifréttir fyrir íslenska landsliðið og að sjálfsögðu Kolbein sjálfan að hann sé loks búinn að finna markaskóna á nýjan leik. 

Á síðustu leiktíð lék þessi 31 árs framherji 27 leiki með AIK í öllum keppnum en skoraði aðeins eitt mark. Það kom þann 8. ágúst 2019 í 2-1 sigri á Sheriff í undankeppni Evrópudeildarinnar. 

Þann 13. júlí sama ár skoraði Kolbeinn síðast tvö mörk í einum og sama leiknum. Þá í 3-0 sigri AIK á Elfsborg.

Kolbeinn hefur nú spilað fjóra leiki með Gautaborg, tvo í deild og tvo í bikar, og skorað tvö mörk. Gott gengi hans heldur vonandi áfram inn í tímabilið og hver veit nema Marek Hamšík geti hjálpað íslenska landsliðsframherjanum að finna sitt besta form á nýjan leik.

Gautaborg er með fjögur stig að loknum tveimur umferðum í sænsku úrvalsdeildinni. Það sem meira er, liðið er með markatöluna 2-0 sem þýðir að Kolbeinn er eini leikmaður liðsins sem hefur skorað til þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×