Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun að boðað yrði til blaðamannafundar í dag. Hún hefði ekkert að segja strax að fundi loknum. Dómsmálaráðherra reiknar með að aðgerðir á landamærum verði til umræðu á fundinum.
Fundur ríkisstjórnarinnar hófst klukkan 9:30 í morgun og yfirgaf Svandís fundinn upp úr klukkan 11:30. Svandís sagðist á leiðinni af fundinum að fjallað yrði um aðgerðir á fundinum í dag.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra sagði um klukkan tólf, þegar hún yfirgaf fundinn, ekki búast við því að aðgerðir yrðu hertar frekar innanlands. Það kæmi allt betur í ljós á blaðamannafundi á eftir.
„Við viljum öll fara varlega og erum að ræða það,“ sagði Áslaug Arna. Áslaug sagðist búast við því að aðgerðir á landamærum yrði til umræðu á blaðamannafundinum.
Fundurinn verður í beinni útsendingu á Vísi, Stöð 2 Vísi og textalýsingu.
Þórólfur Guðnason hefur ekki skilað heilbrigðisráðherra nýju minnisblaði. 21 greindist með Covid-19 í gær og 27 á sunnudag.
Fréttin hefur verið uppfærð.